Pages Navigation Menu

Sharing his thoughts & passion

Nýársávarp forsetans í Hvíta Húsinu

Nýársávarp forsetans í Hvíta Húsinu

Ég ólst upp við nýársávarp Forseta Íslands, alltaf á fyrsta degi ársins, og þar sem ég bý nú í Hvíta Húsinu og titla mig Forseta til gamans, þá er ekki úr vegi að skrifa nýársávarp eins og hver annar Forseti. Myndin er gaumgæfilega valin úr einkasafni Forsetans og lýsir svo vel lífinu sjálfu, því fljótt á litið er þetta sólbjartur dagur, beinn og breiður vegur og að keyra áfram inn í nýtt ár virðist ekkert mál.

“Þegar maður eldist þá þroskast maður og lærir að ekki er alltaf allt sem sýnist og sem betur fer er hugur mannsins þannig gerður að undirmeðvitundin minnir á hvað ber að varast ef maður hefur áður lent í einhverju miður”

Þegar myndin er skoðuð gaumgæfilega sést að malbikið er víða sprungið, það eru bungur á veginum og svo rétt framundan kemur kröpp beygja. Í umhverfinu má sjá þokuslæðing yfir sem truflar sýn þegar keyrt er óvænt inn í, auk þess sem oft á tíðum geta hlaupið dýr inn á veginn fólki algjörlega að óvörum, og þá þarf maður að vera tilbúinn að bremsa snögglega en þó með þann vara á sér að meðferðar fólk í bílnum kastist ekki til og hugsanlega bíllinn fyrir aftan þig keyri á þig. Svona er lífið sjálft, bæði hverfult og fullt af óvæntum uppákomu þar sem skiptast á skyn og skúrir, nú eða sólbjartir dagar á nýlögðu malbiki án hindrana.

Á árinu sem er að líða hef ég horft uppá marga góða vini mína fá óvænt skilaboð um alvarleg veikindi eða missir af einhverju tagi og þá þarf að bremsa snögglega og breyta öllum áformum. Ég hef einnig heyrt af góðu fólki sem misstígur sig á einhvern máta og er það eins og að keyra í sprungu á veginum því ef þú bregst rétt við þá er ekkert mál að halda áfram veginn en ef þú nærð ekki tökum á bílnum þá getur sprungan gert það að verkum að þú komist ekki uppúr hjólfarinu. Ég hef heyrt af fólki sem lifir í algerri þoku af einhverjum ástæðum og þau sjá ekki ljósið og eru rammvilt í þokunni. Ég hef fengið fréttir af vinum sem hafa ekki náð beygjunni og keyrt beint útaf því þeir voru á engan hátt tilbúnir því að svo kröpp beygja kæmi svo skyndilega en sem betur fer hef ég flestar fréttir af ættingjum og vinum þar sem fólki hefur tekist virkilega vel til við aksturinn og lífið hefur verið eins og beinn og breiður ný-malbikaður vegur á sólríkum degi.

Ég nefndi áðan að þegar maður eldist þroskast maður, en þar er á ferð hugurinn sjálfur sem lærir og orðatiltækið “Ungur nemur, gamall temur” hljómar svo einfalt því í því liggur að unga fólkið á að læra af eldra fólkinu og forðast þessar sprungur og beygjur sem þau hafa lent í. Því miður er ekki svo að þetta orðatiltæki virki svo vel í raunveruleikanum því maðurinn er í raun ævintýragjarn og við höfum löngun til þess að prófa sjálf og helst sanna að viðkomandi hafi haft rangt fyrir sér. Þetta er ástæða þess að við þróumst því oft tekst ætlunarverkið og einhverjir ná að sigrast á hindrunum sem áður þóttu ómögulegar viðureignar og þetta er líklega það sem kemur til að skiljá milli mannsins og vélmenna í framtíðinni. Vélmennin sem verið er að þróa um þessar mundir hafa minni sem er óbrigðult og þau taka ekki áhættur og þar skilur á milli.

Þeir sem eru fljótir að hugsa og læra af mistökunum eru þeir sem komast klakklaust í gegnum lífið og þeir sem hlusta og fara eftir máltækinu góða sleppa oft við þessar kröppu beygjur eða holóttu vegi og keyra um á þurru malbiki allt lífið, en þrátt fyrir allt eru það “þeir sem þora sem skora” þó að oftar en ekki geti það kostað blóð svita og tár nú eða jafnvel eitthvað enn verra. Þeir sem þora ryðja oft brautina og leggja nýtt malbik á veginn fyrir hina sem fylgja eftir nú eða leggja algjörlega nýjan veg sem styttir leiðina til muna.

Þegar ég staðset sjálfan mig í þessari dæmisögu má segja að ég hafi ekki einu sinni fylgt veginum heldur farið slóðann sem ekki er á kortinu. Ég hef oftar en ekki reynt að brjóta lögmálin og reynt að sanna fyrir mér að allt sé mögulegt ef viljinn er fyrir hendi. Sem ungur maður með áhuga á Motorcross hef ég valið að fara yfir fjallið en ekki framhjá því og ég hef valið að stökkva yfir hindranir, hóla og hæðir á fullri ferð og stundum bara lokað augunum og vonað að ég nái yfir á torfæruhjólinu mínu. Þetta hefur verið virkilega lærdómsríkt og ég get miðlað svo miklu til barnanna minna og komandi kynslóða en börnin eru misjöfn og sum hlusta og önnur ekki.

Við hjónakornin höfum gert sömu tilraun á öllum okkar börnum og er það nokkuð sem við lærðum ung um uppeldi. Okkur var sagt að börn þyrftu aga en þó að hafa val t.d. þegar út væri farið, væri bara að nefna tvo möguleika til að einfalda valið, og þetta höfum við prófað á öllum okkar börnum. Við sögðum við Ævar Elí þegar hann var lítill, “Viltu fara í bláu eða svörtu stígvélin” og hann valdi umsvifalaust annan litinn – Sömu spurningu fékk Lína Rut sem barn “Viltu fara í rauðu eða bleiku stígvélin” en hennar svar var alltaf á annan veg eða t.d. “Ég ætla í skóm í dag” sem gerði þessa uppeldisaðferð eiginlega óvirka – Litla Lísa Marie hefur farið í gegnum sama ferli en hún svarar ekki alltaf eins og það er eins og hún sé því blanda af Línu Rut og Ævari Elí. Svona er lífið og þegar ég hugsa fram á veginn hlakkar mig virkilega til þess að fylgjast með fólkinu okkar keyra um á sólbjörtum dögum á beinu og breiðu malbiki. Við og skólakerfið höfum gert það sem við getum við undirbúning fyrir veginn sem er framundan og svo er það hvers og eins að vinna úr upplýsingunum.

Sem áhugamaður um undirmeðvitundina þykir mér virkilega gaman að rannsaka mismunandi gerðir af fólki og með tímanum hef ég byggt mér skoðun um fólk sem ég vinn með eða ferðast með í gegnum lífið og set í flokka eftir mjög stutt kynni og oftar en ekki hef ég rétt fyrir mér um vegferð hvers og eins því þetta eru í raun engin vísindi hvernig við sem mannfólk erum. Sumir fara eftir því sem þeim er sagt og forðast þannig holur sem aðrir hafa lent í, aðrir fara ótroðnar slóðir og ryðja veginn fyrir komandi kynslóðir og svo eru það sumir sem eru flinkir að velja á milli.

Oft á áramótum hef ég verið tilbúinn með framtíðar áætlun fyrir komandi ár og byrjað á fyrsta degi ársins að framkvæma. Þessar áætlanir hafa oftar en ekki átt sér það sameiginlegt að vera óframkvæmanlegar á svo stuttum tíma sem ég gef mér og flestar þannig að það er ekki hægt að keyra eftir malbikuðum vegi og finna endastöð. Stundum hef ég reynt að vinna gegn sjálfum mér þ.e. reynt að hemja sköpunarkraftinn og viljann til þess að fara ótroðnar slóðir en oftar en ekki eru það árin sem í minningunni eru þau sístu í mínu lífi. Ég hef því lært á sjálfan mig og nú læt ég hlutina bara gerast, ég stoppa ekki sjálfan mig né aðra heldur miðla ég af reynslu og svo verður hver og einn að hafa val. Við erum öll ólík og þrífumst á svo misjöfnum hlutum og þetta mætti skólakerfið taka til eftirbreytni. Við erum ekki steypt í sama mótið og verðum að fá að skapa okkar framtíð algjörlega sjálf, vélmenni geta verið mótuð eftir þar til gerðu forriti en mannshugurinn verður að fá að blómstra. Þó að þeir sem velji sér ótroðnar slóðir þurfi að takast á við erfiði sem voru óþörf þá er það einmitt það sem mótar þau sem einstaklinga og gerir þau sterkari.

Mig hlakkar virkilega til ársins sem var að ganga í garð og ég hef verið í lága gírnum hvað varðar persónulega þróun síðustu árin enda hefur vinnan tekið mikinn toll. Ég valdi að henda mér út í djúpu laugina og sjá til hvort mér tækist að synda yfir og það er að takast núna. Mitt plan var að þetta tæki 1 – 2 ár en raunin er 4 ár eða akkúrat eitt kjörtímabil. Núna er ég búinn að læra allt það sem ég get lært í núverandi aðstæðum og því kominn tími á næsta kafla því ég hætti ekki að ögra sjálfum mér, það er bara hver ég er. Ég er svo heppinn að hafa hitt konu sem er ævintýragjörn og finnst gaman að taka þátt í mínum ævintýrum og saman höfum við þroskað hvort annað því hún hefur verið á bremsunni og ég á bensíngjöfinnni síðastliðin 27 ár.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og vona svo innilega að þið fylgið draumunum ykkar hverjir sem þeir eru, tilgangurinn okkar hér er að þróast fyrir næstu kynslóð. Fyrir suma er tilgangurinn að ryðja brautina og fyrir aðra að halda hjólunum gangandi, nú svo er það hinn möguleikinn að velja bæði. Fylgið hjartanu, gerið það sem þið eruð góð í eða langar til að gera, árið 2018 kemur ekki aftur svo tíminn er núna. Ég er með planið mitt tilbúið, spurningin er hvort að tímafaktorinn sé réttur, en það tekur þá bara aðeins lengri tíma, en ég fer þangað sem ég ætla mér hvort heldur er á einu kjörtímabili eða einnu ári. Einar afi minn sagði alltaf “Áfram ég skal” og það eru einkunnar orðin mín til ykkar inn í árið. Haldið ótrauð áfram, látið engan segja ykkur fyrir verkum, en hlustið vel þegar fólk varar ykkur við kröppum beygjum, þokubakka eða sprungum í malbikinu. Umfram allt verið góð við þá sem minna mega sín því þeirra tími mun koma.

Nýárskveðja, Bjarni Kr, Forseti Hvíta Hússins í Noregi 🙂