Pages Navigation Menu

Sharing his thoughts & passion

Nýársávarp

Nýársávarp

Þá er árið 2018 á enda og við tekur 2019 með allri sinni dýrð og ljóma yfir nýjum tækifærum og nýjum áskorunum. Að þessu sinni skrifar Kaupmaðurinn, Frumkvöðullinn, Bóndinn og Forsetinn frá Danmörku og nú fer að verða erfitt að velja sér titil þar sem margt er í gangi á komandi ári.

Fyrir nákvæmlega ári síðan settist ég niður við gerð áramótaheita eins og venjan er hjá mér, en sá að ég hafði ekki náð tilætluðum árangri svo úr varð 2ja ára plan sem ég kallaði “Operation X”

Þar skrifaði ég niður áætlun fyrir komandi 2 ár þ.e. 2018 & 2019 og skipti áramótaheitunum upp í 3 flokka “1# Fjölskylda — 2# Vinna — 3# Frumkvöðull” og eitt af stærstu áskorunum var að koma mér úr því vinnunumhverfi sem ég var í, þar sem ég var ekki að njóta mín til fullnustu lengur og sköpunargáfan fékk ekki sinn sess.

Planið var sem sagt að breyta til innan tveggja ára, því eins og Albert Einstein sagði um árið “Það er heimska að halda að breytingar eigi sér stað með því að gera hlutina eins ár eftir ár” en planið gekk svo hratt fyrir sig að allt var klárt í Apríl, húsið seldist áður en það var auglýst, við fermdum Línu Rut, útskrifuðum Ævar Elí sem stúdent, pökkuðum niður og aftur upp á nýjum stað, tókum á móti gestum og komum okkur fyrir á nýjum stað.

– Þessar breytingar hafa auðvitað tekið á, þar sem það að flytja búferlum er ein af stærstu andlegu raunum mannsins, samkvæmt fræðunum og hefur sama erfiðleikastuðul og að missa maka eða náin ættingja. Við höfum unnið hratt og örugglega úr þeim hlutum sem hafa komið upp og má segja að núna sé allt að verða eins og það á að vera.

– Lísa Marie fékk ekki inn í Leikskóla í haust og því hefur Ólöf María nýtt tímann í að kenna henni tölurnar og stafina og tekur litli Ljónsunginn okkar við eins og svampur. Hún kann að telja, reikna einfalda hluti, stafa og herma eftir því sem skrifað er, svo ekki sé minnst á að hún talar líka Ensku eins og herforingi og syngur enska teksta ein inni í herberginu sínu. Það verður líklega strembið að koma henni í gang með Dönskuna en við erum aðeins byrjuð og skólinn er sem betur fer með svokallaðan forskóla frá Mars – Júlí þar sem hún fær smá aðlögun áður en sex ára bekkurinn hefst að fullu í haust.

– Lína Rut hefur skráð sig í tónlistarnám eftir áramót, en hennar áhugi liggur algjörlega á því sviði, söngur, píanó og gítarspil svo eitthvað sé nefnt kemur langt á undan því að læra á bókina og þess vegna er Saga og Stærðfræði ekki ofarlega á listanum hjá Prinsessunni okkar, en við höldum okkur við efnið þó erfitt sé stundum.

– Ævar Elí siglir í gegnum laufléttan vetur þar sem undirbúningsnámið fyrir Háskólann er aðeins tvo daga í viku og einungis þrjú fög, en eftirá að hyggja alveg frábær undirbúningur að komast inn í samfélagið áður en Háskólinn hefst fyrir alvöru. Prinsinn okkar ögraði sjálfum sér nú á haustmánuðum, með því að kaupa sér íhluti og setja saman draumatölvu leikjanördsins, alveg sjálfur, og það verkefni gekk upp 100% og pabbinn fylgdist spenntur með, enda tölvur eitt af hans áhugamálum.

– Frúin á bænum hefur haft mestan fókus á að halda heimili, því það að hafa eina 5 ára heima allan daginn er nánast full vinna, auk þess sem hinir þurfa stuðning í gegnum fyrstu skrefin í nýju landi. Í Mars þegar Lísa Marie byrjar í forskólanum ætlar Ólöf María að setja sig í stellingar fyrir komandi ár og eru möguleikarnir óendanlega margir. Að setja í gang aftur, gæluverkefnið okkar frá 2010 þ.e. “Den Danske Gårdbutik” sem fór í pásu þegar Lísa Marie fæddist, keyra í gang netverslun, læra eitthvað sniðugt og svo mætti lengi telja.

– Um haustið flakkaði kaupmaðurinn á milli Noregs & Danmerkur og skipti svo alfarið um vinnu í Október, á meðan heimilisfólkið kynnti sér nærumhverfið. Við skruppum svo öll heim til Íslands og slógum upp léttri veislu fyrir ættingja, þar sem fagnað var Fermingu, Útskrift og 5 ára afmæli, auk þess sem Mamma kom og var hjá okkur í sumar, Tengdamamma hjá okkur í haust og nú bónusdóttirin okkar, Agnes Gísla, sem er hjá okkur um Jól og Áramót.

Sem sagt þá endaði tveggja ára planið með því að við vorum farin frá Noregi í Maí og má því með sanni segja að það að taka ákvörðun sé oft stærsta hindrunin, en þegar ákvörðunin er komin gerast hlutirnir oft svolítið af sjálfu sér. Nú erum við sem sagt ári seinna í Danmörku, kaupmaðurinn í nýrri vinnu sem snýst um að breyta verslunarrekstri fyrirtækisins algjörlega, með allskonar nýjum lausnum og aðferðum. Verkefnið kallast “Next Generation Retal” eða “Næsta Kynslóð Smásölu” sem felur í sér innleiðingu nýrra verkferla og nútímavæðingu verslunar hjá Elgiganten og frumkvöðlafræðin sem frumkvöðullinn nam í Danmörku fá nú að njóta sín í botn.

Verkefnið felur í sér teymis stjórnun, sköpun nýrra vinnuferla, sköpun á nýrri fyrirtækjasýn, sköpun á nýjum verslunarhættum og svo að innleiða það fyrst í Danmörku sumarið 2019 og troða þannig slóðann fyrir hin löndin sem fyrirtækið starfar í, Noreg, Svíþjóð & Finnland. Eins og sagði í Áramótapistlinum fyrir 2017 þá vill Frumkvöðullinn ögranir, líður ekki vel með stöðnun í starfi og vill alltaf fara ótroðnar slóðir, svo nú reynir á.

Samhliða þessu höfum við sem fjölskylda breytt ýmsu í okkar venjum eins og til stóð og meira verður af á komandi ári, þegar við verðum búin að koma okkur betur fyrir í sveitinni. “Operation X” hefur því farið eins og til var ætlast, fyrir utan nokkur gæluverkefni í “frumkvöðla-heilanum” en hver veit nema að flutningar í sveitina séu ákveðinn undirbúningur fyrir þau áform.

Við erum öll undirbúin fyrir frábært ár 2019 og þar ber hæst að Lísa Marie byrjar í skóla (sem hana hlakkar verulega til), Lína Rut klárar skólaskylduna sína, sem og að Ævar Elí mun hefja Háskólagönguna fyrir alvöru. Það verða viðbrigði fyrir frú Maríu að vera ekki með Lísu Marie heima alla daga og möguleikarnir því óþrjótandi.

Við óskum ykkur öllum velfarnaðar á nýja árinu og hvetjum ykkur til þess að gera allt til þess að verða besta útgáfan af ykkur sjálfum, vera góð hvert við annað, hugsa vel um umhverfið okkar, hjálpa þeim sem minna mega sín og vera umfram allt góð við dýrin – Þetta eru einkunnarorðin okkar í sveitinni og lífsmottó.

Tilvitnunin “Það er gott að vera mikilvægur, en það er mikilvægara að vera góður” verður því okkar á komandi ári og munum við halda okkar stefnu sem einstaklingar í að vera umfram allt góð og láta gott af okkur leiða.

Kaupmaðurinn lætur orð Jack Ma verða niðurlag Nýársávarpsins, en Jack Ma, sem er eigandi og stofnandi vefverslunarinnar Alibaba og einn af þeim sem virðist sjá lengra en venjulegt fólk sagði í viðtali, að nú á tímum vélmennavæðingar væri mikilvægast fyrir mannkynið að efla sköpun og góðmennsku ásamt sjálfstæðri hugsun, því það væru okkar einu yfirburðir yfir vélvæðinguna. Við keppum ekki við vél-minni sem man allt eða vél-menni sem getur endirtekið sömu aðgerðina 1000 sinnum á sólahring, en það sem við getum er að við getum alltaf verið góð.

Miðað við orð hans erum við öll algerlega á réttri braut, og áhugi okkar á skapandi greinum hárrétt framtíðarsýn, en við höldum okkur umfram allt við það að vera góð.

Áramótakveðjur frá Kaupmanninum, Frumkvöðlinum, Bóndanum og Forsetanum 🙂

//Bjarni
www.imagine.is

One Comment

  1. Gleðilegt ár til ykkar allra. Megi árið 2019 verða ykkur gjöfult
    Bestu kveðjur frá Stokkhólmi